top of page

Tannhvíttun

Einfalt og áhrifaríkt

Óhætt er að fullyrða að lýsing tanna eða „tannhvíttun“ hefur valdið straumhvörfum í fegrunartannlækningum. Aðferðin er tiltölulega einföld og getur haft afar mikla þýðingu fyrir brosið og útlit tanna. Reynslan hefur sýnt að tannhvíttun með sérútbúnum skinnum gefur í flestum tilvikum bestu útkomuna.

Nauðsynlegt er að skoða sjúklinginn áður en hvíttun fer fram til að meta tannheilsu og aðra þætti sem geta skipt máli, svo að meðferðin heppnist sem best. Stundum er nauðsynlegt að hreinsa tannstein og yfirborðsóhreinindi af tönnunum áður en tannhvíttun hefst. Einnig getur verið nauðsynlegt að gera við tennur sem eru með opnar tannskemmdir.

Ekki er mælt með tannhvíttun hjá táningum sökum þess hve viðkvæmar tennurnar geta verið. Ef brýn þörf er á má nota efnið í styttri tíma en venjulega og í fleiri skipti.

Spurt og Svarað

Hvernig virkar tannhvíttun?

Efnið sem við notum til að hvítta með er venjulega blanda af karbamíð peroxíð eða vetnisperoxíði ásamt bindi - og snefilefnum til að minnka líkurnar á tannkuli og auka þægindin við notkun. Hvíttunarefnið gengur inn í tennurnar og losar súrefni sem hreinsar þær. Algengasta meðferðin er að tekin eru mót af efri og neðri tanngarði og sérstakar skinnur smíðaðar sem falla þétt að tönnunum. Sjúklingurinn fær skinnurnar í sérstöku boxi og 4 túpur með til að klára upphafsmeðferðina. Aðferðin er mjög einföld. Hvíttunarefnið er sett í skinnurnar, u.þ.b einn dropi eða rúmlega það fyrir hverja tönn og þær notaðar í 1 til 2 tíma. Passa þarf vel að nota ekki of mikið efni því allt sem fer úr skinnunni þegar hún er sett upp á tanngarðinn nýtist ekki. Jafnvel má sofa með skinnurnar en best er að prófa sig áfram með með styttri tíma til að byrja með og meta hvort tannkul eða önnur óþægindi gera vart við sig. Þegar búið er að hvítta er nauðsynlegt að þrífa skinnuna vel og geyma í boxinu sem fylgir með.

Fylgja einhverjar aukaverkanir meðferðinni?

Getur tannhvíttun skaðað glerunginn? Algengasta vandamálið er viðkvæmni í tönnum. Það er oftast vægt en getur í einhverjum tilvikum verið tímabundið vandamál. Það eru samt til leiðir til að minnka líkurnar á að þetta gerist og einnig er hægt að draga úr óþægindunum með ákveðnum efnum. Ekki er talið að glerungurinn sjálfur geti skaddast ef farið er eftir fyrirmælum og meðferðin er framkvæmd með réttum hætti. Hins vegar ber að varast að ofnota heimahvíttunina. Best er að einstaklingurinn prófi að hvítta fyrst um sinn í stutta stund, ef til vill klukkutíma eða svo í fyrsta sinn. Ef það gengur vel má lengja tímann þangað til viðkomandi treystir sér til að sofa með skinnurnar. Það gefur besta árangurinn. Einnig ber að hafa í huga að yngra fólk er yfirleitt með viðkvæmari tennur og því ekki talið æskilegt að hvítta fyrr en fólk er komið yfir tvítugt. En það geta verið undantekningar frá þessu. Algengt er að fólk fari í sína fyrstu hvíttun eftir þrítugt. Sumir byrja þó fyrr og fer það að sjálfsögðu eftir tannlit og þeim kröfum sem fólk gerir til útlitsins. Ef sjúklingur verður var við einhver vandamál er best að hafa samband við sinn tannlækni og meta stöðuna.

Geta allir búist við mikilli breytingu?

Rannsóknir hafa sýnt að mikill meirihluti þeirra sem hvítta er ánægður með meðferðina. Ein rannsókn frá 2003 sýndi fram á að 98% voru ánægð með árangurinn. Þetta á við þau tilfelli þar sem um hefðbundnar „öldrunar“-litabreytingar er að ræða. Það geta einnig verið aðrar sjaldgæfari orsakir fyrir dökkum lit á tönnum og er tannhvíttun þá ekki jafn árangursrík í sumum tilvikum. En þá er hægt að grípa til annarra ráða.

Eru til aðrar leiðir til að hvítta tennur?

Við höfum margar aðferðir til að breyta lit og útliti tanna. Stundum er nauðsynlegt að setja plastfyllingar, postulínsfacettur eða jafnvel krónur á framtennurnar til að ná þeim árangri sem sjúklingur óskar.

Hvað þarf að hvítta oft til að ná góðum árángri?

Ef heimahvíttun er notuð er oftast þörf á 7-14 skiptum. Í sumum tilvikum þarf enn lengri tíma. Það fer einnig eftir því hversu lengi efnið er notað í hvert skipti.

Þarf að endurtaka meðferðina með vissu millibili?

Algengt er að fólk eigi efni til að hvítta og endurtaki meðferðina í nokkra daga í senn einu sinni á ári. Vegna þess er gott að eiga þessar skinnur og grípa til þeirra ef liturinn fer að breytast í fyrra horf. Þá dugar oftast að hvítta í 2-4 skipti. Skinnurnar sjálfar endast afar vel.

Geta allir hvíttað?

Ekki er mælt með tannhvíttun ef konur eru ófrískar eða með börn á brjósti. Einnig getur verið varasamt að hvítta ef fólk er með mjög viðkvæmar tennur eða með meðfædda glerungs- eða tannbeinsgalla.

bottom of page